04
nóv

Umhverfisvaktin 10 ára

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

er 10 ára í dag,

4. nóvember 2020!

Innilega til hamingju félagsmenn, vinir og velunnarar.

Þökkum af alhug stuðninginn gegnum árin.

Stjórnin

18
feb

Ályktun aðalfundar 2019

Ályktun Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, samþykkt á aðalfundi félagsins 9. 2. 2019

 

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð skorar á Umhverfisstofnun sem starfsleyfisgjafa og eftirlitsstofnun og Faxaflóahafnir sem eiganda Grundartanga, að halda skaðsemi vegna stóriðju á Grundartanga í algjöru lágmarki með auknu eftirliti og grunnrannsóknum á áhrifum eiturefna á umhverfið. Loftgæðamælingar vegna flúors og brennisteins eru í skötulíki og útsleppi í stórum stíl frá Elkem Ísland er leikur að heilsu manna og dýra. Þar sem mengunartopparnir valda mestum skaða er engin afsökun að útsleppið kunni að rúmast innan leyfilegs ársútsleppis.

Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að taka nú þegar upp mælingar á mengandi efnum sem stafa frá stóriðjunni á Grundartanga og geta skilað sér inn í matvæli frá landbúnaði á svæðinu. Ágiskanir eru ekki boðlegar og áreiðanlegar niðurstöður verða ekki til nema með endurteknum vísindalegum mælingum. Umhverfisvaktin minnir á mengunarslys hjá Norðuráli sumarið 2006 en það haust mældist flúor í kjálkum lamba margfalt meiri en haustið 2005. Afurðir lambanna fóru á markað án nokkurra eiturefnamælinga. Iðjuverin sem sjá sjálf um umhverfisvöktunina birtu niðurstöður flúormælinganna í apríl næsta ár. Þannig er staðan enn. Sé minnsti grunur um óæskileg efni í mætvælum eiga bændur og neytendur rétt á upplýsingum tafarlaust.

Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að birta allar niðurstöður umhverfisvöktunar vegna iðjuveranna á Grundartanga rafrænt jafnóðum og þær verða til á vef Umhverfisstofnunar, sveitarfélaganna við Hvalfjörð, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar. Kynningarfundir einu sinni á ári, til að kynna gamlar niðurstöður umhverfisvöktunar, eru úreltir og ómarkvissir.

Fundurinn bendir á þá óhugnanlegu staðreynd að ár eftir ár er verið er að vakta mæliþætti sem engin viðmiðunargildi eru til um í íslenskum reglugerðum og starfsleyfum. Þetta á t.d. við um flúor í kjálkum sauðfjár.

Fundurinn fer eindregið fram á að Umhverfisstofnun komi fyrir loftgæðamælistöð vegna flúors og brennisteins norð-vestan við iðjuverin á Grundartanga, utan þynningarsvæða, vegna Berjadalsár sem er vatnsból Akraneskaupstaðar. Loftgæðamælistöð sunnan Hvalfjarðar verði einnig ávallt í notkun, en það er hún ekki nú.

 

29
jan

Aðalfundur 2019

Nú er komið að aðalfundi, en hann verður haldinn laugardaginn 9. febrúar nk.
að Álfagarði (áður Eyrarkoti) í Kjós og hefst kl 13.

Ábúendurnir, Ragnhildur og Lárus, ætla að taka á móti okkur og segja okkur frá starfsemi sinni þar, þegar aðalfundarstörfum lýkur.


Dagskrá aðalfundarins:

1. Skýrsla stjórnar, reikningar, kosningar og önnur venjuleg aðalfundarstörf

2. Tillaga að verkefnum næsta starfsárs

3. Önnur mál

4. Sagt frá starfsemi Álfagarðs


Við gerum ráð fyrir því að fundurinn í heild standi ekki lengur en til kl. 15.

Kaffi og meðlæti verður í boði.


Hittumst heil.

Kær kveðja,

Stjórnin

27
maí

Umhverfisúttekt Faxaflóahafna


... og búskapur í Hvalfirði


Umhverfisvaktin við Hvalfjörð fagnar því að Faxaflóahafnir skuli hafa látið skoða mengunarálag frá iðjuverum á Grundartanga og vöktun umhverfisins, enda hefur Umhverfisvaktin ítrekað bent á hættumerki og leitað eftir viðræðum við Umhverfisstofnun, Faxaflóahafnir og iðjuverin á Grundartanga um umhverfismálin í Hvalfirði.
Faxaflóahafnir sem eru landeigandi á Grundartanga áttuðu sig á að staða mengunar frá svæðinu og eftirlit með henni væru ekki hafin yfir vafa og réðu þrjá sérfræðinga til að fara yfir gögn um málið og skila skýrslu.

Vandinn er sá að sérfræðingunum, höfundum hinnar nýútkomnu skýrslu, var þröngur stakkur skorinn í verkefninu og þeir tóku ýmsum forsendum mengunarmarka og umhverfisvöktunar sem gefnum þó þær séu það ekki.
Umhverfisvaktin telur að skýrsla Faxaflóahafna geti verið fyrsta skref í stóru verkefni. Næsta skref sé að fara rækilega ofan í saumana á möguleikum hefðbundins búskapar í nágrenni stóriðjunnar í Hvalfirði, þar sem sérstaða og verðmæti íslensks búfjár verða í brennidepli.
Rannsaka þarf hvort íslenskt búfé þolir í raun og veru það sem því er ætlað af flúori og brennisteini í grasi og heyi, en stuðst hefur verið við ágiskanir um þolmörk dýranna ár eftir ár. Rannsaka þarf grunngildi eiturefnanna í íslensku sauðfé, nautgripum og hrossum og finna út skaðsemismörk hverrar tegundar búfjár fyrir sig út frá dýraverndunarsjónarmiði og notkun dýranna.


Vöktun búfjár
Höfundar skýrslu Faxaflóahafna byggja niðurstöður sínar varðandi búfé að mestu á vöktunarskýrslu iðjuveranna fyrir árið 2011. Skýrslur iðjuveranna um umhverfisvöktun hafa verið deiluefni, ekki vegna þess að aðilar sem sjá um mælingar séu tortryggðir, heldur vegna utanumhalds iðjuveranna og vegna ákveðinnar tregðu þeirra til að mæla nokkra grundvallarþætti svo sem flúor í beinum langlífra grasbíta og flúor í heysýnum árlega, svo nokkuð sé nefnt.


Iðjuverin hafa einungis samþykkt að greiða fyrir flúormælingar í beinum sauðfjár. Niðurstöður mælinganna kveikja viðvörunarljós hjá skýrsluhöfundum.  Árið 2011 mældist meðalstyrkur flúors í kjálkabeinum fullorðins fjár yfir mörkum þar sem talin er hætta á tannskemmdum (hjá dádýrum) á sjö vöktunarbæjum af tólf þ.e. á bilinu 1000-2000 ppm. Hæsti styrkur flúors mældist 2726 ppm í 6 vetra kind. Þegar kindarhaus er sendur til skoðunar á Keldur fylgja honum hvorki upplýsingar um heilsufar kindarinnar né fleiri sýni úr henni. Einungis er vitað að það þurfti að fella kindina, í þessu tilviki sex vetra gamla. Flúormæling kjálkabeina gefur vitneskju um upphleðslu flúors í beinum hennar en um líðan kindarinnar eða hversu góð hún var til manneldis er ekki vitað.
Spyrja má hvort unnt sé að áætla skaðsemi flúors fyrir sauðfé á Íslandi einungis út frá mælingum á tönnum og beinum. Jafnframt er það álitamál að nota tuttugu ára gamla rannsókn á norskum dádýrum til að álykta um hugsanlegan skaða á kindum og öðru búfé á Íslandi. Umhverfisstofnun hefur samþykkt að norska rannsóknin sé heimfærð á íslenskan búpening. Ekki er að sjá að þessar sérkennilegu forsendur hafi ýtt við höfundum skýrslunnar.


Sömuleiðis má spyrja hvort rétt sé að nota Evrópskan staðal um leyfilegt magn flúors í grasi og heyi án nokkurra undangenginna rannsókna um þolmörk og skaðsemi flúors fyrir hérlend húsdýr. Skýrsluhöfundar gera hvorki athugasemdir við þetta né skort á vöktun á heyi. Þeir líta einnig framhjá því að afleiðingar mengunarslyss í Norðuráli í ágúst 2006 voru ekki rannsakaðar. Þeir gera ekki athugasemdir við að flúor sé ekki vaktað utan þynningarsvæðis yfir vetrartímann, þegar útigangshross eru á beit. Á þeim tíma slaknar á viðmiðum um losun flúors frá Norðuráli samkvæmt starfsleyfi.


Athygli skýrsluhöfunda beinist ekki nægjanlega mikið að því að dreifing mengunar er ekki vel þekkt utan þynningarsvæðis eins og hefur sýnt sig á háum gildum flúors fjarri Grundartanga.


Hér hafa nokkur atriði verið talin upp og vonandi ýta þau við einhverjum. Húsdýrin eru ekki aðskotahlutir í náttúrunni. Þau hafa verið hér frá landnámi og gert þjóðinni mögulegt að komast af. Þau eru stolt hvers bónda og allrar þjóðarinnar og þau eiga rétt á hreinu umhverfi. Því má aldrei gleyma.


Viðbragsáætlun
Höfundar skýrslunnar benda á möguleika þess að koma upp viðbragsáætlun fari útsleppi mengandi efna úr böndunum. Umhverfisvaktin fagnar ábendingunni enda hefur viðbragðsáætlun vegna mengunarslysa og það að íbúar geti fylgst með loftgæðum verið ein af tillögum hennar um úrbætur.
Umhverfisvaktin bendir á að mál hefðu þróast á annan veg ef slík viðbragðsáætlun hefði verið fyrir hendi í ágúst 2006 en þá varð mengunarslys hjá Norðuráli sem íbúar vissu ekki um fyrr en mörgum mánuðum seinna og afleiðingar þess voru ekki rannsakaðar. Slíkt má ekki að endurtaka sig.


Rannsóknir vantar
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hafnar þeirri niðurstöðu skýrsluhöfunda að umhverfisvöktun samkvæmt áætlun og fyrirmælum Umhverfisstofnunar gefi skýra mynd af mengun á svæðinu. Umhverfisvaktin hefur bent á að meðan mikilvægir þættir séu sniðgengnir í mengunarmælingum á vegum iðjuveranna fáist ekki rétt mynd af stöðunni. Skortur sé á rannsóknum á grunngildum, þoli og skaðsemismörkum búfjár varðandi eiturefnið flúor. Vilji Faxaflóahafnir taka afstöðu með náttúru og lífríki ættu þær að þrýsta á Umhverfisstofnun að beita sér fyrir ítarlegum rannsóknum á þolmörkum búfjár sem þarf að sæta stöðugu flúorálagi yfir langan tíma, jafnvel alla æfi. Engar slíkar rannsóknir eru til á Íslandi.


Umhverfisúttekt Faxaflóahafna vegna Grundartanga einkennist af þeim gögnum sem þegar hefur verið aflað og það takmarkar mjög gagnsemi hennar. Samanburður við erlend álver gerir íslensku búfé lítið gagn. Aftur á móti undirstrikar úttektin skort á rannsóknum sem hefði þurft að gera fyrir löngu.


Hvalfirði 20. maí 2013
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð

Greinin birtist í 10. tbl. Bændablaðsins 2013

09
des

Hross á beit á þynningarsvæði

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð hefur ítrekað bent sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar á að hrossabeit á þynningarsvæði brennisteins og flúors vegna stóriðjunnar á Grundartanga er óheimil. Hvalfjarðarsveit á landið sem um ræðir. Þrátt fyrir ábendingarnar hefur sveitarstjórn ekki hreyft við þessu máli svo vitað sé. Hrossin eru enn á þynningarsvæðinu. Þarna eru um 20 hross þar af nokkur folöld, en folöld eru viðkvæmari fyrir eiturefnum heldur en fullorðin dýr. 

Myndin sem tekin var 9. des. 2018 talar sínu máli

hross 5

hross 5