Ályktanir aðalfundar Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð 2018
Umhverfisráðherra
1. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018, skorar á umhverfisráðherra að beita sér fyrir því að aðskilin verði framkvæmd umhverfisvöktunar vegna mengandi iðjuvera á Íslandi og greiðsla fyrir umhverfisvöktunina.
Umhverfisvaktin við Hvalfjörð telur að það fyrirkomulag sem notað hefur verið, samræmist hvorki meginmarkmiðum löggjafar um umhverfis- og náttúruvernd né tilgangi og markmiðum Umhverfisstofnunar, sem er að vernda náttúru og lífríki Íslands.
Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra
2. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018, skorar á landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra að gangast fyrir grunnrannsóknum á þoli íslensks búfjár gagnvart flúori í fóðri og drykkjarvatni og áhrifum langtíma flúorálags á heilsu íslensks búfjár, með áherslu á hross, nautgripi og sauðfé.
Sameignarfélagið Faxaflóahafnir
3. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á sameignarfélagið Faxaflóahafnir að
a. leggja nú þegar niður allar hugmyndir um að koma fyrir fleiri iðjuverum á Grundartanga,
b. hætta að reka þann áróður að stóriðja geti verið skaðlaus fyrir umhverfið,
c. beina kröftum sínum að því að lágmarka skaðsemi vegna iðjuveranna sem þegar eru á Grundartanga með strangari kröfum um hreinsibúnað og meiri og markvissari mælingum á útsleppi mengandi efna. Sérstaklega er minnt á skort á loftgæðamælingum norðvestan við iðjuverin og sunnan Hvalfjarðar.
Stjórnmálaflokkar á Akranesi
4. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á stjórnmálaflokka á Akranesi að leggja fremur metnað sinn í að efla atvinnulíf innan marka kaupstaðarins, en að stuðla að mengandi stóriðju í öðru sveitarfélagi enda koma neikvæð áhrif hins óhreina iðnaðar fram þar.
Hér er átt við mengandi iðjuver á Grundartanga og áhrif þeirra á Hvalfjörð allan.
Stjórnmálaflokkar í Reykjavík
5. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á stjórnmálaflokka í Reykjavík að leggja fremur metnað sinn í að efla atvinnulíf innan marka borgarinnar, en að stuðla að mengandi stóriðju í öðru sveitarfélagi enda koma neikvæð áhrif hins óhreina iðnaðar fram þar.
Hér er átt við iðjuver á Grundartanga og áhrif þeirra á Hvalfjörð allan.
Umhverfisstofnun
6. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á Umhverfisstofnun að koma fyrir loftgæðamælistöð vegna flúors og brennisteins norð-vestan við iðjuverin á Grundartanga og staðsetja mælistöðina utan marka þynningarsvæðis fyrir flúor. Jafnframt skorar Umhverfisvaktin á Umhverfisstofnun að setja þar upp veftengdan sírita loftgæða fyrir almenning og vefmyndavél fyrir Umhverfisstofnun sem beint er yfir verksmiðjusvæðið þannig að starfsmenn UST geti séð hvað um er að vera á svæðinu og til dæmis fylgst með svokölluðum „neyðarútsleppum“ frá Elkem.
7. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á Umhverfisstofnun að banna Elkem Íslandi nú þegar svokallað „neyðalosun“ mengandi efna sem birtist í þykkum reykjarmekki sem leggt yfir nærliggjandi byggðir og ból. Að iðjuverið skuli komast upp með að nota skilgreininguna „neyðarlosun“ lýsir því á dapurlegan hátt hversu frjálsar hendur iðjuverið hefur haft.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar
8. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018, skorar á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að láta ekki deigan síga gagnvart Umhverfisstofnun varðandi loftgæðamælistöð norð-vestur af Grundartanga. Afar mikilvægt er að haldið sé áfram loftgæðamælingum vegna flúors og brennisteins þar sem hæstu gildin hafa mælst.
9. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar að endurskilgreina allt það svokallaða iðnaðarsvæði sem skilgreint var sem slíkt af Hvalfjarðarsveit vegna fyrirhugaðrar byggingar verksmiðju Silicor Materials og breyta því úr iðnaðarsvæði í athafnasvæði eins og það var áður.
Elkem Ísland ehf
10. Aðalfundur Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, haldinn í Garðakaffi á Akranesi 25. febrúar 2018 skorar á forsvarsmenn Elkem Ísland ehf. að láta þegar af útsleppi mengandi efna sem birtist í þykkum reykjarmekki sem leggt yfir nærliggjandi byggðir og ból. Að kalla slíkt fyrirbæri „neyðarlosun“ lýsir á dapurlegan hátt afstöðu iðjuversins til nágranna sinna.