Ályktun aðalfundar 2019

Ályktun Umhverfisvaktarinnar við Hvalfjörð, samþykkt á aðalfundi félagsins 9. 2. 2019

 

Umhverfisvaktin við Hvalfjörð skorar á Umhverfisstofnun sem starfsleyfisgjafa og eftirlitsstofnun og Faxaflóahafnir sem eiganda Grundartanga, að halda skaðsemi vegna stóriðju á Grundartanga í algjöru lágmarki með auknu eftirliti og grunnrannsóknum á áhrifum eiturefna á umhverfið. Loftgæðamælingar vegna flúors og brennisteins eru í skötulíki og útsleppi í stórum stíl frá Elkem Ísland er leikur að heilsu manna og dýra. Þar sem mengunartopparnir valda mestum skaða er engin afsökun að útsleppið kunni að rúmast innan leyfilegs ársútsleppis.

Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að taka nú þegar upp mælingar á mengandi efnum sem stafa frá stóriðjunni á Grundartanga og geta skilað sér inn í matvæli frá landbúnaði á svæðinu. Ágiskanir eru ekki boðlegar og áreiðanlegar niðurstöður verða ekki til nema með endurteknum vísindalegum mælingum. Umhverfisvaktin minnir á mengunarslys hjá Norðuráli sumarið 2006 en það haust mældist flúor í kjálkum lamba margfalt meiri en haustið 2005. Afurðir lambanna fóru á markað án nokkurra eiturefnamælinga. Iðjuverin sem sjá sjálf um umhverfisvöktunina birtu niðurstöður flúormælinganna í apríl næsta ár. Þannig er staðan enn. Sé minnsti grunur um óæskileg efni í mætvælum eiga bændur og neytendur rétt á upplýsingum tafarlaust.

Fundurinn skorar á Umhverfisstofnun að birta allar niðurstöður umhverfisvöktunar vegna iðjuveranna á Grundartanga rafrænt jafnóðum og þær verða til á vef Umhverfisstofnunar, sveitarfélaganna við Hvalfjörð, Faxaflóahafna og Reykjavíkurborgar. Kynningarfundir einu sinni á ári, til að kynna gamlar niðurstöður umhverfisvöktunar, eru úreltir og ómarkvissir.

Fundurinn bendir á þá óhugnanlegu staðreynd að ár eftir ár er verið er að vakta mæliþætti sem engin viðmiðunargildi eru til um í íslenskum reglugerðum og starfsleyfum. Þetta á t.d. við um flúor í kjálkum sauðfjár.

Fundurinn fer eindregið fram á að Umhverfisstofnun komi fyrir loftgæðamælistöð vegna flúors og brennisteins norð-vestan við iðjuverin á Grundartanga, utan þynningarsvæða, vegna Berjadalsár sem er vatnsból Akraneskaupstaðar. Loftgæðamælistöð sunnan Hvalfjarðar verði einnig ávallt í notkun, en það er hún ekki nú.